Monday, December 18, 2006

Sameining háskólanna

Umræðan um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans.

Eggert Bríem prófessor í stærðfræði við HÍ hóf umræðu um þetta mál á HI-starfi er hann heyrði af hugmyndum um að skipta Háskólanum upp í fimm “skóla” vegna sameiningarinnar við KHÍ. Hann óttaðist m.a. að þetta ynni gegn áætlununum um að koma HÍ í flokk 100 bestu háskóla í heimi, hvort sem það er nú raunhæf hugmynd eða ekki. Honum þótti og undirbúningur að þessum breytingum ekki vera nægilegur. Ef gera eigi breytingar á stofnun eins og HÍ þurfi “mikla sýn, góðar hugmyndir og mikinn kraft” sem vantar í þau drög sem kynnt hafa verið. Sameining HÍ og KHÍ sé ”afskaplega slæm hugmynd”.
Jón Torfi Jónasson tók næstur til máls en geta má þess að hann var einn þeirra sem komu sterklega til greina í stöðu rektors hér fyrir skemmstu. Hann byrjar á því að kvarta yfir að hann viti ekki um hvað málið snúist, né rökin vegna sameiningarinnar. Sennilega snúist það ”einungis um að KHÍ verði hluti af HÍ og svo verði að ráðast hvort eitthvað fleira gerist. Rökin væru hagkvæmni stærðarinnar: þeim mun stærri stofnun, því betri.” Honum heyrist umræðan sé ekki lengra komin. KHÍ hafi ekki sett annað veigamikið skilyrði fyrir sameiningu en að HÍ verði skipt upp í skóla og honum skilist að það eigi að verða við þeirri ósk.
Hann sjálfur telur sameininguna ekki verða þróun kennaramenntunar til framdráttar. Helsta umkvörtunarefni hans er þó það að um málið hafi ekki verið efnisleg umræða, þ.e.a.s. engin umræða um kennaramenntun. Fyrst eigi að afgreiða málið og ræða það
síðan; þannig gangi framkvæmdafólk til verka.
Þá greindi hann frá því að uppeldis- og menntunarfræðiskor hafi haldið málstofu sem
var hugsuð sem upplýsingafundur um efnið. Þar hafi verið augljóst að engin efnisleg umræða um sameiningu hafði farið fram í KHÍ. Hann spyr því um hvaða breytingar sé verið að ræða. Frummælendur á málstofunni, sem voru m.a. deildarforsetar í sinni deild, vissu ekki hverju sameining myndi breyta og sáu ekki fyrir sér að hún leysti nein vandamál. Aðalatriðið virtist vera að stokka upp KHÍ.
Jón Torfi spyr einnig hver eigi að taka þær ákvarðanir um kennaramenntun sem teknar verða og gagnrýnir að það hafi ekki verið rætt, né aðrar aðgerðir til að koma á samstarfi um kennaramenntun milli skólanna. Hann spyr hver eigi að hafa forræði um það aðrir en deildirnar sjálfar?
Honum finnst kostulegt hvernig hægt hefur verið að ræða yfirborðslega um sameiningu í
nokkur ár án þess að minnast sem heitið getur á lykilatriði málsins: skipan,
stöðu og þróun kennaramenntunar. Kannski snúist þó málið ekki um kennaramenntun heldur eitthvað allt annað. En hvaö þá?

No comments: