Tuesday, December 19, 2006

Sameining háskólanna (2)

Höskuldur Þráinsson prófessor er sammála Jóni Torfa Jónassyni um að það hafi ekki verið mikið um efnislegar umræður um sameiningarmál HÍ og KHÍ vegna þess að menn hafi ekki vitað vel hvað stæði til. Hann segir einnig frá því að þegar hugmyndin hafi verið kynnt fyrir íslenskuskori á sl. háskólaári þá hafi aðeins legið fyrir stutt "skilagrein" frá nefnd fulltrúa frá HÍ og KHÍ sem höfðu fjallað um málið. Þar hafi aðeins verið farið almennum orðum um kosti slíkrar sameiningar, um að stærri skóli yrði auðvitað öflugri skóli, en ekkert rætt um það í hverju hún gæti verið fólgin í smáatriðum eða hvernig mætti standa að henni. Þess vegna urðu litlar efnislegar umræður um málið og skorin sendi ekki frá sér neina efnislega ályktun.
Höskuldur segir einnig frá kynningarfundi um fyrirhugaðar breytingar á námi í KHÍ, sem haldinn var í Lögbergi sl. vetur. Þar hafi Ólafur Proppé, rektor KHÍ, greint frá miklum áhuga Kennaraháskólamanna á að efla framhaldsnámið. Þeir litu mjög til aukins samstarfs við HÍ í því sambandi, ekki síst með það í huga að senda nemendur úr KHÍ í ýmis fagleg námskeið við HÍ sem þeim byðust ekki við KHÍ.
Á fundinum lýstu margt HÍ fólk efasemdum sínum á þessum hugmyndum og lýstu um leið áhuga á því að efla það kennaranám sem þegar færi fram innan HÍ. Í nefndinni frá HÍ og KHÍ sem samdi skilagreinina um sameiningarmálið voru engir fulltrúar úr þeim tveimur deildum í HÍ sem sameining og aukin samvinna varðaði mest, þ.e. úr Hugvísindadeild og Raunvísindadeild. Þær sjá um kennslu í þeim faggreinum sem eru á dagskrá í grunnskóla og framhaldsskóla (tungumál, íslenska, saga, stærðfræði, eðlisfræði, náttúrufræði ...)
Á fundi á Hátíðasal HÍ sl. vor voru þessi mál aftur á dagskrá. Þá komu aftur fram þessi sjónarmið. Höskuldi finnst erfitt að ræða þessi mál á skynsamlegan hátt nema fyrir liggi einhverjir tilteknir kostir sem hægt sé að vega og meta. Hér sé haft það verklag, sem ekki sé dæmalaust í svipuðum tilvikum, að ákveða fyrst að sameina og reyna svo að leysa vandamálin síðar með því að gera það besta úr öllu saman.
Rektorarnir tóku undir það að auðvitað væri brýnt að vanda vel til verka og hafa undirbúninginn sem traustastan. Ólafur Proppé, rektor KHÍ, sagði að sameining af þessu tagi hefði farið fram á ýmsum stöðum erlendis og það væri um ýmis módel að velja. Höskuldur bendir hins vegar á að ekki hafi komið fram hvaða módell væri helst haft í huga. Hvernig ætti að vinna verkið, þ.e. efla kennaramenntun í landinu, bæði fyrir grunnskólastig og framhaldsskólastig? Því vakni efasemdir um að hér væri aðeins um tilfærslu á skrifstofum og uppstokkun á stjórnsýslusviði að ræða.

Þorsteinn Vilhjálsson prófessor í eðlisfræði lagði næst orð í belg og lýsti sínu sjónarhorni. Hann talaði um þrjú fög sem skiptu höfuðmáli í öllu námi: íslenska, enska og stærðfræði. Það skipti sköpum fyrir starf og stöðu Háskólans að undirbúningur í þessum fögum væri sem bestur í grunnskólum og framhaldsskólum. Til þess þurfi menntun kennara í þessum greinum í skólakerfinu að vera sem best. Flestir telji hins vegar að undirbúningnum sé verulega ábótavant.
Þorsteinn nefnir stærðfræðina sem dæmi og reyndar einnig aðrar raungreinar. Úr þessu megi bæta með því að færa kennslu handa kennaraefnum í þessum greinum til viðkomandi skora Háskólans. Ungt, vel menntað og áhugasamt fólk sækist eftir störfum þar og þannig mundi hæfni þess nýtast bæði við kennslu og rannsóknir sem menn mundu stunda eins og aðrir kennarar við HÍ. Þessi tilfærsla verkefna gæti með því móti líka orðið til að efla rannsóknir.
Fleiri skorir Háskólans væru eflaust tilbúnar að taka að sér kennslu kennaranema í sínum greinum. Þær hefðu þannig bein áhrif á skólakerfið og þekking þeiira mundi nýtast miklu betur en nú er. Ef sameiningin myndi verða til þess styddi hann hana eindregið.

Þessa beinu gagnrýni á kennsluna í KHÍ gat Freyja Hreinsdóttir dósent í stærðfræði við Kennararháskólann ekki látið ósvarað. Hún tók samt undir með Þorsteini um ófullnægjandi undirbúning kennaranema við skólann í stærðfræði. Vægi stærðfræði sé aðeins 4 einingar af 90. Þá komi flestir nýnemar á grunnskólabraut af félagsfræðibraut framhaldsskóla þar sem einungis þarf að ljúka 6 einingum í stærðfræði. Til samanburðar má nefna að inntökuskilyrði í Raunvísindadeild er að hafa lokið 21 einingu í stærðfræði og Verkfræðideild mælir með 24 einingum í stærðfræði.
Hún bendir þó einnig á að stærðfræðikjörsvið KHÍ hafi á undanförnum árum vaxið úr 15 einingum í 30 einingar. 15-30 nemendur velji það ár hvert. Þetta séu einkum þeir sem hyggist verða unglingastigskennarar í stærðfræði.
Framhaldsskólakennarar í stærðfræði hafi hingað til sótt sína menntun til Raunvísindadeildar HÍ. Þó sé árangur þessa fyrirkomulags ekki meiri en svo að innan við 50% af stærðfræðikennslu framhaldsskólans sé á höndum kennara með BS-próf í stærðfræði.
Freyja kennir slakri menntun grunnskólakennara í stærðfræði því að hinn almenni kennaranemi sé með lítinn undirbúning í stærðfræði úr framhaldsskóla og að stærðfræðikennarar við skólann hafi afar fáar einingar til umráða til að bæta úr þessu. Miðað við það að stærðfræði sé næststærsta kennslugrein grunnskólans þá útskrifast of fáir nemendur af stærðfræðikjörsviði KHÍ.
Að lokum bendir Freyja á að nú standi yfir endurskipulagning á námi við KHÍ. Kennarar í stærðfræðigreinum við skólann krefjist að stærðfræði fái meira vægi.

Það vekur hins vegar furðu mína að Kennaraháskólinn sé að endurskoða eigin kennslu mitt í sameiningarferlinu við HÍ. Eðlilegra fyndist manni að beðið væri með slíkt þar til eftir sameiningu, eða þá að endurskipulagningin væri unnin í samráði við HÍ. Að það skuli ekki vera gert vekur upp efasemdir um að sameiningarferlið sé nokkuð annað en orðin tóm. Kennararskólinn muni eftir sem áður hafa sína hentisemi um innra skipulag sitt án nokkurs samráðs við Háskóla Íslands.

No comments: