Monday, December 18, 2006

Kennslufræðin

Færslu þessari er ætlað að sýna mótun starfshugmynda minna um kennslu í einhverri hugvísindagreinanna, einni eða fleiri. Hún birtir ígrundanir mínar um nám í kennslufræðlu í félagsvísindadeild HÍ haustið 2006 og hvernig kennari ég gæti hugsað mér að verða (þ.e. starfskenningu mína). Slík kenning er ávallt í gerjum og mótast smám saman af því sem maður upplifir í námi og í praktík úti í skólanum. Ég hef það að markmiði í náminu að leggja jafna áherslu á teoríu og praxis, þ.e. jafnt á kenninguna og útfærslu hennar. Vonandi litast færslan að þeirri viðleitni minni.

Við starfskenningargreiningu skiptir samband kennara við nemendur miklu máli, þ.e. hinn mannlegi þáttur. Tala má um fjóra mikilvæga þætti: virðingu fyrir nemendum, þekkingu á efninu, áhuga á því og sjálfsöryggi.
Ég lít svo á að markmið kennarans sé fyrst og fremst það að undirbúa nemendur sem best fyrir áframhaldandi nám. Til þess þurfi að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir, virkja nemendur og gera þá ábyrga í námi. Til þess að svo geti orðið þarf kennarinn að vera sívirkur í þróunarstarfi.
Það er hins vegar hægara sagt en gert þar sem starf kennarans fer í svo margt annað en að þróa starf sitt. Það tekur tíma að undirbúa kennslu, í sjálfa kennsluna, fara yfir verkefni nemenda og meta þá, sitja deildarfundi og almenna kennarafundi, hafa umsjón með vali nemenda á námsgreinum o.s.frv.
Þá er mikil vinna í því fólgin að fá nemendur til að læra það sem fyrir þá er sett, t.d. heimanám.
Einnig er mikilvægt að kenna þeim að læra um sjálfa sig og lífið sem bíður þeirra, læra að þekkja tilfinningar sínar og þroska þær. Að þau læri að vinna með öðrum og axla ábyrgð, jafnframt því að þau hugsi og vinni sjálfstætt.
Þetta eru auðvitað ærin verkefni hvers kennara. Ofan á það bætist samvinna með öðrum kennurum sem er nauðsynleg, svo sem að fylgjast með því hvað þeir eru að gera, ekki aðeins kennarar í eigin fagi, heldur einnig þeir sem eru að kenna svipað námefni.
Þetta er mikilvægt svo kennarinn einangrist ekki í sínu starfi, kynnist nýjum kennsluaðferðum og þjálfist í því að nota þær. Öll þessi vinna, og áreiti, gerir það að verkum að kennarinn á erfitt með að vera hinn ídeali kennari sem sífellt er verið að hamra á af kennslufræðingunum. T.d. er hætt við að ekki verði mikið um endurgjöf eins og ávallt er verið að ítreka í handbók æfingakennslunnar. Auðvitað þarf að efla samvinnu milli kennara en til þess að svo geti orðið er nauðsynlegt er að gefið sé aukið svigrúm til þess í námskránni og m.a.s. í stundatöflu kennara. Þá kemur óhentug vinnuaðstaða, þrengsli og fleira í veg fyrir virka samvinnu en ég varð áþreifanlega var við slíkt í MH hvað aðstöðu sögukennarana varðar.

No comments: