Monday, December 18, 2006

Kennslufræðin (3)

Þá er komið að sjálfri starfskenningunni. Hægt er að taka undir það sjónarmið að það sé engin einn lykill að kennarastarfinu, engin ein lausn til á því hvernig góður kennari sé eða eigi að vera. Starfkenningin þarf nefnilega að vera í sífelldri mótun enda koma fram sífellt nýir nemendur, nýjar hugmyndir og nýjar kennslubækur. Hver kennari hefur sinn eigin stíl en er samt alltaf að læra eitthvað nýtt allt sitt kennaralíf.
Tvö atriði eru mikilvæg í þessu sambandi að mínu mati. Annars vegar góð tengsl við nemendur og skilningur á því hvernig þeir hugsa um námsefnið og hinsvegar að kennarinn skilji sjálfur viðfangsefni sitt.
Því er mikilvægt fyrir kennara að vera ávallt vel skipulagður og undirbúinn fyrir hverja kennslustund, bera virðingu fyrir nemendum og búast alltaf við jákvæðum hlutum frá þeim. Þá er mikilvægt að vera maður sjálfur, láta sér líða vel í kennslustund og sýna mannlegu hliðarnar. Einnig er mikilvægt að vera opinn fyrir hugmyndum nemenda og þeirra veruleika og reyna að tengja kennsluna við hann. Hafa húmor fyrir sjálfum sér og geta slegið á létta strengi.
Segja má að ég vilji með minni starfskenningu reyna að sameina beina kennslu og hugsmíðahyggju, þ.e.a.s. leggja áherslu á mikilvægi þess að kennarinn sé vel að sér í greininni, að hann taki tillit til stöðu nemenda og vinni einnig út frá henni. Með því að sameina þetta tvennt, hina námsmiðlægu og nemendamiðlægu kennslu, trúi ég að góður árangur náist við tvö höfuðmarkmið allrar kennslu. Annars vegar að búa nemandann undir áframhaldandi nám á hærri skólastigum eða undir starf úti í samfélaginu. Hins vegar að hjálpa nemendunum til að þroskast andlega og tilfinningalega, verða betur í stakk búnir til að takast á við lífið sem bíður þarna úti í framtíðinni. Þ.e. að takast á við lífið jafnt í gleði og í sorg. Er þetta tvennt í sameiningu ekki hið ídeala?

No comments: