Tuesday, December 19, 2006

Sameining háskólanna (3)

Þorsteinn Vilhjálmsson hefur trú á því að kennarar í sérgreinum við Kennaraháskólann muni fagna sameiningu og þar með nánara samstarfi við hlutaðeigandi skorir Háskóla Íslands. Starfsaðstaðan muni batna við það, störfin verða fjölbreyttari og starfsumhverfið frjórra. Ef þetta gerðist ekki þá væri þar með horfin mikilvæg stoð undan sameiningarhugmyndinni.
Upphafsmaður umræðunnar, Eggert Briem, kveður sér nú aftur hljóðs og líkir sameiningarferlinu við aðdraganda Írakstríðsins. Ekkert samráð sé haft við fulltrúa þeirra deilda sem þekkja eitthvað til náms og kennslu í faggreinum KHÍ, þ.e. hugvísindadeildar og raunvísindadeildar og þeir sem höfðu efasemdir um sameiningu skólanna séu ekki hafðir með í ráðum og gerðir tortryggilegir. Þeir væru sagðir á móti framförum og sæju ekki fjárhagslega ávinninginn af sameiningunni. Þá efast hann um að sameiningin hækki standard KHÍ, þar sem einungis þriðjungur kennara sé með doktorspróf. Fullyrt hafi verið að það myndi breytast við sameininguna. Eggert bendir hins vegar á að þeir sem ekki hafa doktorspróf, fylgdu með í kaupunum. Hann heldur og fram muninum á skólabragnum í skólunum. Kúltúrinn í KHÍ væri allur annar en í HÍ, nýnemar að jafnaði miklu eldri en í HÍ og með annan undirbúning en krafist væri í hugvísinda- og raunvísindadeild HÍ. Auk þess er kennaranám starfsnám og því bundið.
Það sem sé líkt með sameiningarferlinu og aðdraganda Írakstríðsins sé einmitt það að engar umræðu hafa átt sér stað, ekkert talað við þá sem þekkja eitthvað til KHÍ, hvað þá að sjónarmið þeirra væru virt viðlits.
Eggert gefur í skyn að ástæðan fyrir sameiningarferlinu sé að KHÍ ”þurfi að fá hjartahnoð” hjá HÍ. Rektor KHÍ beri hér mikla ábyrgð. Þegar kennsla í raungreinum á þeim brautum framhaldsskólans sem flestir nýnemar KHÍ koma af var skorin verulega niður árið 1999 skv. ákvörðun menntamálaráðuneytisins, gerði KHÍ engar kröfur til nýnema um að þeir bættu það upp með viðeigandi valgreinum í framhaldsskóla.
Nú útskrifar KHÍ kennara, sem eiga að kenna reikning og stærðfræði í grunnskóla, með einungis tveggja vikna nám í stærðfræði við KHÍ að baki, ofan á litla sem enga stærðfræðimenntum í framhaldsskóla. Eggert efast um þessir kennarar hafi það sjálfsöryggi sem þurfi í kennslu. Honum finnst að það hefði mátt byrja á að gera úttekt á KHÍ og fara þar eftir almennri ráðleggingu erlendra sérfræðinga um úttekt á íslenskum háskólum. Kanna hvert hlutverk KHÍ sé og hvernig KHÍ sinnir því, þar á meðal hvort kennarar KHÍ séu starfi sínu vaxnir. Síðan mætti skoða hvort kennarar HÍ geta gert betur o.s.frv. Að fengnum svörum hefði verið hægt að hefja umræður innan HÍ um málið, og í framhaldinu setja fram markmið með sameiningu - eða bara hætta við.
Hann spyr að lokum hvað stoði nú rök eða staðreyndir þegar Alþingi sé búið að samþykkja sameininguna og vitnar í Oscar Wilde um að forðast bæri rök og staðreyndir í allri umræðu, þau væru ávallt ruddaleg og alltof sannfærandi. Reyndar kom nú innlegg frá Hjalta Hugasyni kirkjusöguprófessor og fyrrum vararektor við KHÍ um að frumvarpið hafi ekki verið samþykkt heldur frestað að taka ákvörðun um það þar til eftir áramót.
Þorsteinn Vilhjálmsson svarar þessu og vill ekki viðurkenna að upplýsingar hafi ekki legið fyrir. Hægt hafi verið að lesa frumvarpið um sameininguna á vefnum, ásamt fylgiskjölum. Þar komi fram að fulltrúar KHÍ í undirbúningi málsins hafa áskilið að HÍ verði skipt í skóla í tengslum við sameininguna.
Svo virðist hins vegar að HÍ hefði ekki sett nein skilyrði í málinu, t.d. um að framlögð gögn taki af allan vafa um það að kennsla í sérgreinum kennaranáms verði í höndum skora HÍ eftir sameininguna.
Með því móti myndi staða sérgreinanna í kennaramenntun og skólakerfi styrkjast til muna að hans mati og ýmislegt af því sem nú er talið fara aflaga mundi leysast sjálfkrafa. Kennarastöður yrðu jafnvel auglýstar og hæfasti umsækjandi einfaldlega valinn hverju sinni. Þessi breyting mundi hafa veruleg áhrif strax og síðan ganga fram til fulls á 10-20 árum svipað og ýmsar aðrar svipaðar breytingar sem gerðar hafa verið í skólakerfinu.
Þá finnst honum undarlegt að ekki sé tekið á inntökumálum þegar fjallað sé um þetta og að inntökuaðferðir í kennaranámið verði með einhverjum hætti felldar að inntöku í annað nám við HÍ um leið og sameining fer fram. Að öðrum kosti hljóti menn að spyrja hvað orðið sameining merki.

Sá eini sem hefur brugðist til varnar Kennaraháskólanum er Ásgrímur Angantýsson, doktorsnemi í íslenskri málfræði.
Honum finnst hin hagnýta áhersla á náminu við KHÍ vera mikilvægt mótvægi við hina fræðilegu áherslu í HÍ. Of bóknámsmiðuð inntökuskilyrði og of bóknámsmiðað
kennaranám muni skaða menntun í landinu og gera hana einsleitari. Mannlegi þátturinn sem einkenni KHÍ megi ekki verða útundan. Hvað t.d. með verk- og listgreinar? Hvað með sértæka aðstoð við börn sem eiga í erfiðleikum með bóknám?
Þó svo að kennaranemendur hafi ekki nægan undirbúning til að kenna stærðfræði og raungreinar megi þó ekki gleyma því að þeir sem hafa lokið námi af mála- og
félagsfræðibrautum ættu að vera betur undir kennarastarfið búnir. Þeir hafi lagt sig meira eftir því að kynna sér húmanísk fræði, samfélagsgerðina og þann breytileika sem bíður þeirra sem fara að kenna í leik- og grunnskólum. Áhyggjur um að starfsemi KHÍ muni færa nám við HÍ niður á lægra plan stafa af neikvæðum viðhorfum gagnvart hagnýtu námi og starfi í uppeldis- og umönnunargreinum.
Arngrímur er sjálfur ekki viss um að “því góða starfi sem unnið er í KHÍ sé endilega best borgið innan veggja HÍ." Þá vill hann ekki undir nokkrum kringumstæðum styðja enn frekari takmarkanir inntökuskilyrða svo sem að meina nemendum af náttúrufræðibrautum aðgang að hug- eða félagsvísindagreinum. Hann vill búa þannig um hnútana að allt sé opið að loknu stúdentsprófi.
Í umræðu Arngríms við Gísla Gunnarsson kemur m.a.s. fram gagnrýni á réttindanám framhaldsskólakennara. Hann spyr hvort menntun þeirra taki nægilegt mið af starfinu núorðið því að talsverðar breytingar hafi orðið á Því. M.a. hafi verið gagnrýnt að tengslin við faggreinarnar séu ekki nógu markviss.

1 comment:

Unknown said...

Gaman að sjá að þú ert farinn að blogga Torfi. Ég mun líta í heimsókn reglulega.

Kv
Þorkell